York er paradís fyrir þá verslunar glöðu. 

Miðbærinn í York

Það er gömul saga og ný að fólk  kemur alls staðar að til að versla í York. Það eru ekki síst lestar samgöngurnar sem eru frábærar og staðsetning lestarstöðvarinnar sem dregur fólk að. Fólk sem býr í London tekur lestina þaðan á innan við tveim tímum til að rölta í bæinn og versla bæði um helgar og ekki síst fyrir jólin.  Miðbærinn er lítill og þægilegur og bíður uppá að það er hægt að ganga endanna á milli og engin þörf á að vera að taka leigubíla. Hér eru allar þekktustu  verslunarkeðjurnar s.s. H&M, Zara, Next, M&S og Monsoon í miðbænum og auk þess þá má finna stórverslanir (department stores) eins og Fenwick og Brown sem bjóða upp á öll þekktustu merkin líka og að sjálfsögðu er hægt að finna lágvöruverðs keðjur eins og Primark. Það er fjöldin allur af skemmtilegum sjálfstæðum búðum sem selja allt milli himins og jarðar.

Tíska

Í miðbænum finnur þú tískuvöru, úr og skartgripi, ilm- snyrtivörur, heimilisvörur, hágæða konfekt og súkkulaði, listinn er endalaus.  Það er alveg víst að í York finnur þú alltaf eitthvað öðruvísi og skemmtilegt sem kemur á óvart. Hér eru t.d. Harry Potter búðir í röðum á elstu og þrengstu götu bæjarins The Shambles, lítil sérverslun með módel og skemmtileg leikfangaverslun með tréleikföng en þetta eru búðir sem sjást ekki orðið mjög víða.  Bretar halda í þá skemmtilegu hefð að senda kort við öll tilefni og tækifæri. Fyrir þá sem hafa gaman af því að bæta í tækifæriskorta kassann sinn þá eru þó nokkrar búðir sem selja nánast bara tækifæriskort.

Þeir sem hafa gaman af því að grúska í verslunum sem selja notaðan fatnað þá eru góðgerðar verslanir á hverju strái og hægt að finna drauma flíkina á spottprís og styrkja gott málefni í leiðinni. Nýlega var opnuð á Parliament Street sem er aðalgata miðbæjarins stór verslun með notaðan fatnað, skó og fylgihluti. Það er mikið af galleríum, listaverka búðum og lífsstíls búðum í York sem spannar nánast allann skalann, hvort sem fólk er að leita af “alvöru” list eða handverki.  York er þekkt fyrir að vera mekka súkkulaði og sælgætisframleiðslu í Bretlandi og það má finna ilminn leggja yfir borgina frá Nestlé verksmiðjunni sem áður hét Rowntree og í miðbænum hægt að kynna sér þá sögu.

Sælgæti og konfekt

Það er mikið af sælgætis og konfektbúðum og litlum súkkulaði og konfekt framleiðendum, t.d. York Cocoa House en þar er ekki bara hægt að kaupa góðgæti heldur líka gæða sér á heitu súkkulaði og fara á allskonar námskeið, slóðin fylgir hér https://www.yorkcocoahouse.co.uk  York býr að því að það er markaður í miðbænum, The Shambles Market alla daga vikunnar og það eru nálægt 100 básar sem hægt er að rölta á milli og það kennir ýmissa grasa. Sjón er sögu ríkari. Í miðbænum er flóran af veitingastöðum, krám, börum, kaffi og te húsum með ólíkindum í ekki stærri borg. Það er því engin hætta á að fólk verði svangt eða þyrst á verslunar röltinu.

Fyrir þá sem ekki hafa áhuga á að verja tímanum í fara á milli búða í bænum þá eru verslunarkjarnar með öllum helstu keðjunum í útjaðri borgarinnar sem er auðvelt er að heimsækja með strætó sem stoppar nánast við dyrnar á Bakgarðinum.

McArthur Glen Designer Outlet York

York státar líka af stórglæsilegu “outleti” McArthur Glen Designer Outlet York í  útjaðri borgarinnar og þangað gengur sérstakur vagn sem einnig stoppar við dyrnar hjá okkur. Þar er að finna allt milli himins og jarðar, öll helstu merkin í fatnaði, snyrtivöru, heimilisvöru og guð má vita hvað á frábæru verði. Þar líður dagurinn hratt og eins og í miðbænum þarf enginn að verða svangur eða þyrstur og allir geta fengið mat og drykk við sitt hæfi.

Til gamans má geta þess að fyrir jólin þá er sett upp glæsilegt útsvæði sem er tileinkað vetrinum og jólunum með skautasvelli og allskonar afþreyingu sem þeir kalla Winter Wonderland og þykir það eitt það glæsilegasta í  Englandi og hefur hlotið verðlaun fyrir glæsileikann. Læt slóðina fylgja hér og þar má lesa um Vetrarlandið margverðlaunaða https://www.mcarthurglen.com/en/outlets/uk/designer-outlet-york/

Nasaþefurinn af York

Það sem hér að ofan er skrifað er rétt aðeins til að gefa fólki nasaþefinn af því sem York hefur uppá að bjóða í verslun og það verður engin svikin á því sviði sem heimsækir borgina. Það þarf sjálfsagt ekki að nefna það en ég geri það samt, að í Bretlandi er ekki virðisaukaskattur á barnavöru og því sérlega hagstætt að gera innkaup fyrir börnin.

Hér geta þeir sem hafa áhuga og vilja undirbúa heimsóknina kíkt  https://www.visityork.org/business-directory/category/shopping

Comments are closed.