York Food & Drink Festival

Það er nánast alltaf eitthvað um að vera í York allt árið um kring. Þegar þetta er skrifað í September þá er York Food & Drink Festival í fullum gangi í borginn. Þetta er árleg matar- og drykkjarhátið þar sem framleiðendur í York og nágrenni koma og kynna og selja sínar vörur. Þarna má finna allt milli himins og jarðar, sultur, hunang, olíur, edik, bakkelsi, kjöt, pylsur og osta svo eitthvað sé nefnt. Sífellt er verið að koma húsfreyjunni á óvart hversu flóran af matarframleiðslu er fjölbreytt og metnaðurinn mikill. Ekki má gleyma drykkjunum sem eru framleiddir og bruggaðir hér um slóðir en þar fer sennilega Ginið hæst á undan ýmiskonar bjórtegundum og líkjörum.

Göngugatan

Göngugatan í miðbænum er undirlögð af tjöldum og básum og mannhafið er iðandi og matarilminn leggur yfir. Hægt er að grípa með sér götumat á röltinu. Í risa stóru tjaldi eru líka básar og þar er eldað frá morgni til kvölds og tilvalið að tylla sér og njóta matar og lifandi tónlistar. Stemmingin er rafmögnuð og fyrir húsfreyjuna komandi frá Íslandi þá er þetta eins og að vera lítið barn í dótabúð.

Þétt dagskrá

Dagskráin er þétt og hægt að fylgjast með nafntoguðum kokkum bjóða uppá sýnikennslu og þeir ungu og upprennandi keppa. Það er hægt að fara í allskonar matar og drykkjartengdar gönguferðir um borgina með leiðsögn, bæði ætlaðar fullorðnum og börnum. Veitingastaðirnir í York og nágrenni taka virkan þátt í hátíðinni og bjóða allskonar tilboð og sniðuglegheit í tengslum við hátíðina. Þetta er viðburður sem húsfreyjan mælir eindregið með og ekki vitlaust að skipuleggja komu sína til York í tengslum við þessa hátíð fyrir þá sem hafa áhuga á mat og drykk.

Fylgjumst með

Það er hægt að fylgjast með hvað er að gerast á samfélagsmiðlum og á heimasíðunni sem mér skilst að sé lifandi allti árið og þar geta áhugasamir kynnt sér allt sem viðkemur hátíðinni
https://www.yorkfoodfestival.com.

Comments are closed.